þriðjudagur, 27. júlí 2010

Ekki manneskja heldur möguleg manneskja

skriða föst fallandi í tíma hús hálfbrotin óbrotin aldrei brotin en munu verða hnullungarnir snúast ef þú horfir nógu lengi og ef þú horfir ekki þá sérðu ekki skriðu bara grjót svífandi í lausu lofti þung ský og hús og fólk eilíflega örugg því það sem gerist hægt skeður ekki

flugvél sprengja borg ef þú bíður nógu lengi þá stöðvast tíminn og sprengingin er bara smákúla sem þú burðast með í fanginu eins og nýr alheimur í fæðingu eða við í endurfæðingu mannverur þróaðar upp á nýtt án sjálfs og sársauka sem heilar okkar skapa úr einhvers konar kjöti

saltvatnsveggur á hraða jarðskorpufleka manneskjur sem gætu verið skúlptúrar ef ekki væri fyrir svita og vot augu málmur bognandi öldurnar rísa hvorki né falla við gætum klifrað upp á topp og rennt okkur niður ef við værum ekki skelfingu lostin um að drekkja

fimmtudagur, 1. júlí 2010

Sumartanka

    Hún kvaddi og strauk
kvið minn eins og þar innra
    sparkaði fóstur.
Tvær tómar vodkaflöskur,
sólin hvessist gegnum gler.

Fylgjendur