mánudagur, 9. ágúst 2010

Reiða

á óteljandi næturhimnum er sólin stjarna
enn ein dauf ljóstýran í myrkum alheimi
geislar hennar vart numdir af ljósnæmum skynfærum
lífvera sem láta hana sig ekkert varða
eins og sólin er fyrir mannkyninu ert þú fyrir mér
við snúumst um eina miðju stjörnuþoka kringum svarthol
um daginn þegar við sátum á hvítum viðarkollum
við grænt eldhúsborð og deildum viskíflösku sagðir þú
það sem var sárast var að fatta að við værum ekki sérstök
líf okkar ekkert einstakara en nokkurt annað
ég hló og sagði tími til að koma upp í rúm
þú starðir í vökvann glæran efst hunangsgulan neðst
allir klakarnir eru bráðnaðir sagðir þú
á þeirri örstundu þegar alheimurinn fyrst varð til
var allt í fullkominni reglu allt þar sem það var í upphafi
tíminn er mælistika á óreiðu

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Fylgjendur