mánudagur, 28. apríl 2014

Klámferill við heimsenda

Vinur minn Micah sem ég hef ekki hitt eða heyrt í vel á áratug
sagði mér eitt sinn að hann hefði verið að horfa á klámmynd frá áttunda áratugnum
það var eitt sinn í tísku að finnast klámmyndir frá áttunda áratugnum bestu klámmyndirnar
og í einni dramatískri senu sem gerist á strætum stórborgar gekk framhjá maður með hund í ól
Micah hugsaði með sér: „Þessi hundur hlýtur að vera dauður núna“
síðan hugsaði hann: „Eigandi hans gæti verið dáinn líka“
þið verðið að skilja að þessar hugsanir fóru allar fram á öðru tungumáli en íslensku
en Micah er svo vandur að virðingu sinni að óhugsandi er annað en að hann myndi nota
dauður fyrir dýr
dáinn fyrir mann
þegar næsta klámsena hófst hugsaði hann: „Þetta nakta fólk gæti verið dáið öll átta dáin“
hann hefur aldrei getað horft á klámmynd síðan en í siðvandari kvikmyndum hrjáir þetta hann ekki
þar er gervið vandaðra og holdið hulið og þar af leiðandi tilvist mannvera ósýnileg utan rammans
dauðinn dáinn er ekki ríkjandi ástand dauður fyrir dýr dáið fyrir fólk heldur skáldskapur
eins og í æsku manns þegar allt utan þess sem maður skynjar með vitunum er skáldskapur
fortíð framtíð heimurinn utan hrings skilningarvitanna orsakir afleiðingar samfélagið
alheimurinn bara hugmynd stjörnur og stjörnuþokur punktar í næturmyrkrinu
í upphafi var einn punktur og ég veit ekki hvernig allt endar þá verð ég löngu dauður
dauður fyrir dýr ég er dýr og á dýr fyrir vini hví skyldi ég borða vini mína
dýr éta
fólk borðar
vini mína sem ég hef ekki hitt eða heyrt í vel á annan áratug ég var í sveit þrettán ára
hvers vegna að láta dýr gjalda óforsjálni minnar ég rak kýr og þær treystu mér og þekktu mig
löngu eftir kýrdaga mína var ég vandur að virðingu minni en svo ungur að allt var skáldskapur
ég og kærasta mín síðar eiginkona mín síðar mín fyrrverandi og nú eiginkona stærðfræðings
en í stærðfræði deyr ekkert bæði dýr og manneskjur deyja en eilífðin er stærðfræðihugtak
við áttum vinkonu jafn unga okkur sem dreymdi um að taka klámmyndir heima hjá sér
hún bað okkur um að koma heim til sín ekki til að taka kvikmynd bara ljósmyndir
meðan ég og kærasta mín myndum elskast þó að í þessu samhengi sé kannski betra að segja ríða
ríða fyrir dýr
elskast fyrir fólk
í tilvist sem er skáldskapur er eðlilegt að segja já og amen og spyrja hvenær við eigum að mæta
við áttum líka slatta af vinum sem gerðu klámmyndir í frístundum og bjuggu við góðan skáldskap
svo við lögðum af stað þegar svarað var: „Mætið strax engin ástæða að bíða“
úti var kalt það var rétt yfir tvítugu og vel undir frostmarki og klámferill okkar að hefjast
þegar við vorum í fimm mínútna fjarlægð frá því að ríða elskast á skjalfestan hátt
rann kærasta mín á svellbungu og rófubeinsbrotnaði og þar með lauk klámferli okkar
nú erum við fráskilin og tölumst ekki við en hún er gift með barn og ég í hamingjusömu sambandi
þannig að allt fór vel að lokum þó að öll dýr deyji og ég hafi ekki hitt eða heyrt í Micah vel á áratug
og ég veit ekki hvort hann hugsi enn um dauðann þegar hann hugsi um klám
eða hvort hann geri greinarmun á mannskaða eða dýrskaða
og hvort við hittumst áður en alheimurinn endar ef hann endar en allur skáldskapur endar

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Fylgjendur